Skimun fyrir brjóstakrabbameini með brjóstamyndatöku

Skimun fyrir brjóstakrabbameini með brjóstamyndatöku

  • Hvaða gagn er að því að gangast undir skimun fyrir brjóstakrabbameini og hvaða skaðlegar afleiðingar getur skimun haft í för með sér?
  • Hve margar konur hafa gagn af skimun og hve margar bíða tjón?
  • Hvaða ályktanir má draga af vísindarannsóknum á þessu sviði?

Samantekt

Í frumútgáfu þessa bæklings sem birt var árið 2008 stóð í samantekt:

Gild rök geta verið fyrir fyrir því að gangast undir skimun fyrir brjóstakrabbameini með brjóstamyndatöku, einnig getur verið skynsamlegt að láta það ógert. Skimun getur gert gagn, en getur einnig haft skaðlegar afleiðingar.

Konur ættu að kynna sér kosti og ókosti skimunar til að geta tekið upplýsta ákvörðun.

Ef 2000 konur gangast reglulega undir skimun á 10 ára tímabili mun ein þeirra hafa gagn af skimuninni, enda hefði hún ella dáið úr brjóstakrabbameini.

Jafnframt mun skimunin hafa þær afleiðingar að 10 frískar konur gangast undir meðferð sem krabbameinssjúklingar. Brjóst þeirra verður numið á brott í heild sinni eða að hluta, margar þeirra hljóta geislameðferð en sumar jafnframt meðferð með krabbameinslyfjum.

Að auki munu um 200 frískar konur þurfa að gangast undir frekari rannsóknir áður en þær eru úrskurðaðar frískar. Þær upplifa því óþarfa áhyggjur eða “falsk alarm” eins og sagt er á dönsku (e. false alarm). Óvissan um hvort um krabbamein er að ræða eða ekki getur valdið verulegu tilfinningalegu álagi.

Þessar tölur voru byggðar á slembirannsóknum (e. randomised trials) á brjóstaskimun. En eftir að þessar slembirannsóknir voru framkvæmdar hefur meðferð gegn brjóstakrabbameini fleygt verulega fram. Nýlegar rannsóknir benda til þess að skimun með brjóstamyndatöku dragi ekki lengur úr hættunni á því að konur deyji úr brjóstakrabbameini.

Skimun hefur í för með sér að heilbrigðar konur sem aldrei hefðu kennt sér meins vegna brjóstakrabba eru gerðar að krabbameinssjúklingum. Meðferðin sem þessar heilbrigðu konur gangast undir eykur líkurnar á því að þær deyji um aldur fram, meðal annars af hjartasjúkdómum og krabbameini.

Þess vegna lítur út fyrir að ekki sé lengur skynsamlegt að taka þátt í brjóstaskimun. Konur sem forðast brjóstaskimun draga þvert á móti úr líkunum á því að greinast með brjóstakrabbamein. Eftir sem áður er hugsanlegt að sumar konur kjósi að taka þátt í brjóstaskimun.